Endurheimt verðmæta við gjaldþrot 2. útg.
Endurheimt verðmæta við gjaldþrot 2. útg.
Endurheimt verðmæta við gjaldþrot 2.útg.
Okkur er sönn ánægja að tilkynna að Codex hefur gefið út 2. útgáfu af ritinu Endurheimt verðmæta við gjaldþrot - skýringar við reglur XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eftir Viðar Má Matthíasson, rannsóknarprófessor við lagadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi hæstaréttardómara. Um er að ræða nýja og endurskrifaða útgáfu af bók með sama heiti sem út kom á árinu 2000 og er fyrir löngu uppseld. Riftunarreglur fengu í aðalatriðum núverandi skipan með lögum nr. 21/1991. Frá gildistöku þeirra hafa gengið nokkur hundruð dómar um efni þeirra ekki sízt eftir að mælt var fyrir um að reglurnar skyldu gilda við slit fjármálafyrirtækja, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Við ritun 1. útgáfu bókarinnar frá 1998 til 2000 höfðu gengið rúmlega 100 dómar um efnið, en við slit þeirra fjármálafyrirtækja sem leiddi af hinni alþjóðlegu efnahagskreppu sem skall á haustið 2008 og lagðist með fullum þunga á íslenzkt efnahagslíf fjölgaði dómum um riftun ráðstafana samkvæmt XX. kafla gþl. verulega. Auk dóma tengdum efnahagskreppunni hafa gengið fjölmargir aðrir dómar um riftun ráðstafana þrotamanns, sem um er fjallað í ritinu. Með þeim mikla fjölda dóma sem gengið hefur frá fyrri útgáfu hafa ákvæði riftunarreglna XX. kafla um gjaldþrotaskipti o.fl. þannig skýrzt mjög og liggja ýmis mikilvæg hugtök nú ljósar fyrir en áður, t.d. hvernig hugtökin greiðsla og skuld eru notuð í 134. gr. laganna. Enn frekar hafa dómaframkvæmd og síðari norræn fræðiskrif skýrt auðgunarhugtak 142. gr. gþl., einkum að því leyti sem það skilur sig frá skaðabótaábyrgð og ákvörðun á fjárhæð skaðabóta.
Ritið skiptist í 7 kafla þar sem umfjöllunarefnin eru eftirfarandi:
1. kafli Inngangur
2. kafli Ýmis hugtök og skýringar á þeim
3. kafli Skiptastjóri
4. kafli Skuldajöfnuður við gjaldþrotaskipti
5. kafli Almenn atriði um riftun og gjaldþrotaskipti o.fl.
6. kafli Einstakar riftunarreglur í XX. kafla gþl.
7. kafli Endurgreiðslureglur XX. kafla gþl. réttaráhrif riftunar
Höfundur: Viðar Már Matthíasson
Fjöldi blaðsíðna: 485 bls.