Um Úlfljót

Úlfljótur, tímarit laganema, hefur verið gefið út lengst allra fræðirita við Háskóla Íslands. Fyrsta tölublað þess leit dagsins ljós í lok febrúarmánaðar árið 1947. Frá þeim tíma hefur tímaritið verið gefið út á hverju ári, að undanskildu árinu 1951, og orðið efnismeira með hverju árinu sem líður.

Í Úlfljóti er að finna vandaðar greinar um íslenska sem og alþjóðlega lögfræði auk þess sem þar er að finna umfjöllun um það sem er efst á baugi í lögfræði hverju sinni. Þar eru m.a. reifaðir nýjustu dómar Hæstaréttar, fjallað um ný fræðirit á sviði lögfræði og greint frá helstu tíðindum sem berast frá Alþingi svo fátt eitt sé nefnt. Í tímaritinu eru og fluttar fregnir af hinu stranga og áhugaverða laganámi sem og hinu viðburðaríka starfi félagsstarfi Orators og Úlfljóts. Flestir höfundar eru lögfræðingar eða laganemar en auk þeirra hafa fjölmargir aðrir, sem láta sig lögvísindi varða, ritað greinar í Úlfljót.